Breytingar á starfsemi Borgarskjalasafns Reykjavíkur frá og með 1. janúar 2024

Í upphafi nýs árs vill Borgarskjalasafn Reykjavíkur minna á að afgreiðsla safnsins verða áfram opin virka daga milli 13.00-16.00 á árinu 2024 og mun svara fyrirspurnum úr safnkosti á vef safnsins.

Fyrirspurnarformið má finna hér: https://www.borgarskjalasafn.is/is/senda-fyrirspurn.

Einnig er hægt að senda póst á netfangið borgarskjalasafn@reykjavik.is

Ennfremur er minnt á að frá og með 1. janúar 2024 munu stjórnsýsla og stofnanir Reykjavíkurborgar skila skjölum sínum til Þjóðskjalasafns Íslands. Á sama tíma mun Þjóðskjalasafn taka við hlutverki Borgarskjalasafns varðandi ráðgjöf og eftirlit með skjalavörslu og skjalastjórn stofnana og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Í því felst meðal annars að samþykkja málalykla, skjalavistunaráætlanir og skjalageymslur, afgreiða tilkynningar á rafrænum gagnasöfnum, samþykkja afhendingarbeiðnir á viðtöku pappírsskjala, ákveða um grisjun skjala og hafa eftirlit með skjalavörslu og skjalastjórn Reykjavíkurborgar.

Með tilfærslu verkefna frá Borgarskjalasafni til Þjóðskjalasafns verður það hlutverk Skrifstofu upplýsinga- og skjalastýringar hjá Reykjavíkurborg að hafa umsjón með skjalastjórn Reykjavíkurborgar, þ.e. sinna innri ráðgjöf, gefa út leiðbeiningar til starfsmanna, sjá um fræðslu til að tryggja góða stjórnsýslu sem og að hafa innra eftirlit með framkvæmd samkvæmt reglum um skjalastjórnun. Skrifstofan verður einnig tengiliður Reykjavíkurborgar við Þjóðskjalasafn Íslands.

Þá mun viðtaka einkaskjalasafna frá Reykjavík færast til Þjóðskjalasafns frá sama tíma eða 1. janúar 2024.

Nánari upplýsingar um tilfærslu verkefna og safnkosts Borgarskjalasafns til Þjóðskjalasafns má finna á upplýsingasíðu Þjóðskjalasafns um verkefnið, hér.