Fjölbreytt dagskrá á Safnanótt

Borgarskjalasafn tekur þátt í Safnanótt föstudagskvöldið 13. febrúar 2009. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð. Hugsunin þar er sú að söfnin séu með öðruvísi dagskrá en venjulega og höfði til almennings. Dagskráin er sett saman með það í huga:

Kl. 19.00-23.59Opið hús í Borgarskjalasafni Borgarskjalasafnið verður með opið hús á Safnanótt. Í boði eru sýningar, fræðsla um safnið, fyrirlestrar, tónleikar. Kaffiveitingar.

Rómantísk elskendakort Sýning á litríkum og rómantískum elskendakortum frá fyrri hluta 20. aldar sem bregða ljósi á samskipti kynjanna og endurspegla jafnframt tísku og tíðaranda þessa tímabils.

Stopp! Sýning á stoppuðum og bættum fötum.

Kl. 19.15Sönghópurinn Blikandi stjörnur Hópurinn hefur komið fram á listahátíðum fatlaðra víða erlendis og fengið viðurkenningu Evrópusambandsins fyrir besta atriðið í sínum flokki. Þjálfari og söngstjóri hópsins frá upphafi er Ingveldur Ýr söngkona. Blikandi Stjörnur gáfu nýverið út geisladisk með atvinnutónlistarmönnum og hefur hann hlotið frábærar viðtökur.

Kl. 20.00 Stoppað í sokka Fulltrúi frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands leiðbeinir um hvernig eigi að stoppa í göt á sokkum. Fólk getur mætt með uppáhaldssokka og gert við á staðnum.

Kl. 21.00Í knattspyrnu á kúskinnsskóm – Fyrirlestur um fyrstu kynni Íslendinga af knattspyrnu Í fyrirlestrinum mun Þórarinn Björnsson, skjalavörður á Borgarskjalasafni, sýna og fjalla um heimildir sem varpa nýju ljósi á frumbernsku knattspyrnuiðkunar Íslendinga. Fjallað verður um skrautlegan fótabúnaðinn, fyrstu boltana, elstu varðveittu lög íslensks knattspyrnufélags og sitthvað fleira. Sérstök áhersla verður lögð á upphaf Vals og KR í ljósi nýrra heimilda.

Kl. 22.30Pétur Ben Pétur Ben tónlistarmaður mun spila og syngja í Borgarskjalasafni frá kl. 22:30. Pétur hefur sannarlega gert garðinn frægan í íslensku tónlistarlífi á undanförnum árum og einnig samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir. Textar hans og einlægur flutningur hafa vakið verðskuldaða athygli og fyrsta sólóplata hans „Wine for my Weakness“ hlaut íslensku Tónlistarverðlaunin 2007, sem besta platan. Heyra má sýnishorn af tónlist hans á YouTube.