Góðir gestir frá Drammen í Noregi

Í dag komu tveir skjalaverðir frá Borgarskjalasafninu í Drammen í Noregi í heimsókn á Borgarskjalasafnið og kynntu sér starfsemi safnsins. Það voru þeir Tom Oddby borgarskjalavörður í Drammen og Vegard Arnesen, sagnfræðingur og menntaður skjalfræðingur, sem starfar sem skjalastjóri hjá sveitarfélagi fyrir utan Osló.

Auk almennrar kynningar á Borgarskjalasafni, höfðu þeir sérstaklega áhuga á að kynna sér hvernig skjalastjórn væri háttað hjá borgarstofnunum og hlutverk safnsins í fræðslu, ráðgjöf og eftirliti. Þá höfðu þeir áhuga á að fræðast um söfnun einkaskjalasafna, hvernig safnið kynnti starfsemi sína og fleira.

Slíkar heimsóknir starfsmanna sambærilegra skjalasafna frá öðrum löndum eru mikilvægar í því skyni að kynnast hvað aðrir eru að gera og læra hver af öðrum.