Heimsóknir í skóla borgarinnar

Á vormánuðum hafa Menntasvið og Borgarskjalasafn Reykjavíkur staðið fyrir sameiginlegum námskeiðum um skjalavörslu grunnskóla Reykjavíkur. Námskeiðið sækja skólastjórnendur, skrifstofustjórar, ritarar og aðrir sem koma að skjalamálum skólanna og hefur á þeim skapast lífleg umræða um skjalamálin. Þegar hafa verið haldin þrjú námskeið fyrir skóla og þau halda áfram í ágúst næstkomandi þegar skólastjórnendur koma úr sumarleyfi. Á námskeiðunum hefur meðal annars verið fjallað um lagalegar skyldur skólanna varðandi skjalamál, um skjalavistunaráætlun, málalykil, Mentor, pökkun skjala og skráning og skjalaskil til Borgarskjalasafns Reykjavíkur.

Í framhaldi af námskeiðunum hefur verið farið í heimsóknir í grunnskóla þar sem rætt er við stjórnendur og starfsmenn um það sem helst brennur á þeim varðandi skjalamál skólanna. Stefnt er að því að í sumar skili allir grunnskólar borgarinnar, þmt skólar reknir af einkaaðilum, skjölum eldri en 20 ára til Borgarskjalasafns Reykjavíkur.

Í flestum skólum borgarinnar eru nú unnið hörðum höndum að því að finna til eldri skjöl skólanna, pakka þeim og skrá í samræmi við fyrirmæli Borgarskjalasafns. Í haust munu skólarnir taka upp persónumöppur og málalykil sem útbúinn hefur verið fyrir þá. Tölvupóstar verða prentaðir út og raðað í viðeigandi möppur. Þá á skráning á erindum og málum að verða í samræmi við gildandi lög. Með því verður skjalavarsla skólanna samræmd og unnið að því sameiginlega markmiði að varðveita sögu skólanna og upplýsingar um þá einstaklinga þar sem þar hafa numið eða unnið.