Horft til Bessastaða

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur sett upp litla sýningu tengda kosningabaráttu forsetakosninga fyrri ára.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur safnar og varðveitir kosningabæklinga og annað kynningarefni sem gefið er út fyrir kosningar til borgarstjórnar, Alþings og embættis forseta Íslands.

Á sýningunni nú er sýnt kosningaefni sem tengist kosningum til embættis forseta Íslands í gegnum tíðina. Áhugavert er að fara í gegnum það efni sem hefur varðveist, þar sem það er miklu minna að vöxtum en annað kosningaefni og frá síðustu kosningum nær ekkert. Sennilegar ástæður eru þær að ekki hafa verið margar kosningar til forseta í gegnum árin og áratugina annars vegar og hins vegar að um er að ræða framboð einstaklinga sem hafa ekki jafn mikið fjárhagslegt bolmagn til útgáfu og stjórnmálaflokkar.

Sýningin er opin á opnunartíma Borgarskjalasafns alla virka daga kl. 10-16 og er aðgangur ókeypis og öllum heimill. Safnið er í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, 3. hæð. 

Borgarskjalasafn Reykjavíkur vill gjarnan fá til varðveislu efni sem núverandi forsetaframbjóðendur gefa út, þar með taldar ljósmyndir á stafrænu formi og einnig ef fólk hefur undir höndum eldra kosningaefni.