Í fjórðu og síðustu jólagrein Borgarskjalasafns lítum við niður í dagbók sem má finna í skjalasafni Verslunarinnar Baldur nr. E-103. Júlíus Guðmundsson átti og rak Verslunina Baldur frá árinu 1930-1973/1974 sem staðsett var á Framnesvegi 29. Bróðir hans Ragnar Guðmundsson (f. 1903- d. 1998) hafði stofnað verslunina nokkrum árum áður.
Dagbókin segir frá siglingu til Miðjarðahafsins. Lagt var úr höfn á Íslandi þann 28. nóvember 1952 og lagt að höfn á Íslandi þann 14. janúar 1953. Tók ferðin því hátt í 50 daga. Farþegar héldu upp á jólin um borð í Kötlu fjarri heimahögum. Jólin voru þó ekki minna hátíðleg þrátt fyrir að vera með öðru sniði.
Á aðfangadegi 1952 var eftirfarandi á boðstólnum; íslensk Faxaflóasíld með brauði, kjötseyði, soðin ýsuflök a la Íbisa, steiktar rjúpur með káli og aldinmauki. Í eftirrétt var logandi búðingur, kaffi, ávextir, hnetur og rúsínur. Boðið var svo upp á koníak og sódavatn eftir matinn. Kvenfólkið sat um morguninn og prjónaði upp á brúnni í glaðasólskini og skiptst var á jólagjöfum.
Á jóladegi lá Katla við höfn í Íbísa og var hitinn 17-19°c þann dag. Á boðstólnum í hádeginu var aspassúpa, soðið hangikjöt, uppstúfur og baunir. Hrísgrjónagraut með möndlu, nýir ávextir og kaffi. Í kaffitímanum var boðið upp á jólabakkesli ásamt kaffi og súkkulaði. Í kvöldmat var kalt borð þar sem meðal annars mátti finna svið.
Á öðrum degi jóla fóru farþegar í land að versla og skoðuð sveitina og saltnámur. Spilaður var Brids um kvöldið.