Laugarnesskóli 70 ára - síðasta sýningarhelgi

Á sýningunni er meðal annars fjallað um upphaf skólans, skólahverfið og byggingu skólahússins sem Einar Sveinsson, húsameistari bæjarins, hannaði. Það er að ýmsu leyti sérstakt, meðal annars vegna listskreytinga sem prýða húsið, eftir þá Ásmund Sveinsson myndhöggvara og Jóhann Briem listmálara. Þá er vikið að uppbyggingu í Laugarneshverfi og þá sérstaklega byggingu kennarahúsanna við Hofteig.

Meðal merkra þátta úr sögu Laugarnesskóla má nefna heimavistina sem tók til starfa seint á árinu 1935 og var fyrir veikluð börn á skólaaldri til hressingardvalar. Ennfremur er á sýningunni fjallað um þá heilsuvernd sem stunduð var í Laugarnesskóla, þar á meðal hinar illræmdu lýsisgjafir, ljósaböð, læknisheimsóknir og fleira.

Brugðið verður upp svipmyndum af leik og starfi nemenda og námsgreinar kynntar. Þá er fjallað ítarlega um leiklistar- og tónlistarlíf í Laugarnesskóla, enda er áhersla á listgreinar eitt af því sem hefur einkennt skólann nánast frá upphafi.

Á sýningunni gefur að líta fjölda ljósmynda og skjala úr sögu skólans, bæði nýjar og gamlar.