Ljósmyndir úr einkaskjalasafni Meyvants Sigurðssonar (f. 1894 - d. 1990)

Meyvant Sigurðsson (f. 5. apríl 1894 - d. 8. september 1990). ©Borgarskjalasafn Reykjavíkur.
Meyvant Sigurðsson (f. 5. apríl 1894 - d. 8. september 1990). ©Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Ljósmyndir eru einstakar heimildir og geta gefið okkur hugmynd af því sem einu sinni var. Í skjalasöfnum opinberra aðila og einkaaðila er oft að finna áhugaverðar og skemmtilegar ljósmyndir sem varpa ljósi á verkefni stjórnsýslunnar og daglegt líf almennings. 

Hluti af stafræningu safnkosts Borgarskjalasafns síðustu ára hefur verið meðal annars að skanna inn slík ljósmyndasöfn til langtíma varðveislu. 

Á næstu vikum munum við birta skemmtilegar og áhugaverðar ljósmyndir  úr slíkum söfnum. Í þessari fyrstu umfjöllun munum við kynna ljósmyndir úr einkaskjalasafni Meyvants Sigurðssonar nr. E-491.

Meyvant Sigurðsson var fæddur 5. apríl 1894 í Guðnabæ í Selvogi. Meyvant ólst upp í Reykjavík frá tveggja ára aldri en hann var eitt af jarðskjálftabörnunum svokölluðu sem flutt voru til Reykjavík frá Suðurlandi vegna Suðurlandsskjálftanna árið 1896. Meyvant vann sem bílstjóri í yfir 65 ár en fyrsta starf hans fólst í því að aka hestvögnum. Síðar stofnaði hann sína eigin vörubílastöð, Vörubílastöðin sem kölluð var Vörubílastöð Meyvants í daglegu tali, á horni Tryggvagötu og Grófarinnar NV í Reykjavík  Einnig starfaði hann að uppbyggingu Háskólalóðarinnar og sem húsvörður í Nýja Garði ásamt eiginkonu sinni Björgu Maríu Elísabetu Jónsdóttur (f. 26. desember 1891 – d. 13. janúar 1974). Síðar starfaði hann sem dyravörður í Háskólabíó til ársins 1974. Nánar er hægt að lesa um æviágrip Meyvants hér.

 Ef þú hefur einhverja ábendingu varðandi ljósmyndirnar er hægt að senda okkur línu í gegnum netfangið okkar borgarskjalasafn@reykjavik.is eða setja inn athugasemd á myndirnar á facebook síðu safnsins sjá hér.