Menningarnótt á Borgarskjalasafni

Á Menningarnótt 2008 verður Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Tryggvagötu 15 með opið hús laugardaginn 23. ágúst kl. 16 til 21. Hægt er að skoða sýningu um Austurvöll, fá sér kaffi og meðlæti og taka þátt í getraun. Börnin fá blöðru frá safninu.  Fólk er hvatt til að setjast niður á safninu og skrifa sögur sem tengjast Austurvelli eða um sýn sína á honum.

Austurvöllur á sér langa sögu og er sýningunni ætlað að varpa ljósi á þætti í sögu hans. Upphaflega náði Austurvöllur frá Tjörninni út að sjó og frá Aðalstræti að Lækjargötu. Honum er lýst sem grænni sléttu með dældum og mýrarblettum. Árið 1787 varð hann kaupstaðarlóð og sama ár var Dómkirkjunni valinn staður í suðausturhorni vallarins. Í kjölfarið tók ferðafólk að hreiðra um sig í tjöldum á Austurvelli í kaupstaðarferðum yfir sumartímann.

Vegna þjóðhátíðarinnar 1874 hófu bæjaryfirvöld fyrstu framkvæmdirnar við Austurvöll og létu slétta hann og tyrfa. Síðan var völlurinn girtur með trégirðingu. Ári síðar var stytta af myndhöggvaranum Bertel Thorvaldsen afhjúpuð á honum miðjum með mikilli viðhöfn og voru það fyrstu hátíðarhöldin sem fram fóru á Austurvelli. Árið 1881 reis Alþingishúsið við völlinn og fimmtíu árum síðar var styttan af  Jóni Sigurðssyni flutt frá Stjórnarráðshúsinu á Austurvöll í stað styttunnar af  Thorvaldsen sem flutt var í Hljómskálagarðinn.

Austurvöllur hefur um langt skeið verið ein helsta miðstöð hátíðahalda í borginni og kröfugöngur og mótmæli hafa einnig sett svip sinn á hann.

Á sýningunni eru skjöl og ljósmyndir sem varpa ljósi á sögu Austurvallar og hlutverk hans í höfuðborginni. Meðal annars eru þar bréfabók bæjarfulltrúa frá 1856 þar sem lýst er hestastæðavandræðum og lagt er til að fólk bindi reiðskjóta sína á Austurvelli meðan það sinnir erindum, umfjöllun frá fyrri hluta 20. aldar um gróður og girðingar á Austurvelli, mikilvægi lagningar skautasvells og fyrstu jólatrén þar. Einnig eru sýndar fjölmargar myndir af Austurvelli á ýmsum tímum, m.a. frá þeim tíma þegar tjaldað var þar í kaupstaðarferðum. og frá óeirðum sem brutust út þann 30. mars 1949 þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Atlandshafsbandalaginu. Birtar eru í fyrsta sinn færslur úr dagbók Lögreglunnar í Reykjavík tengdar óeirðunum. Þá eru á sýningunni umfjöllun um mótmælaaðgerðir við Alþingishúsið þegar Helgi Hóseasson sletti skyri við setningu Alþingi 1972.

Sem fyrr segir verður opið hús Borgarskjalasafns laugardaginn 23. ágúst kl. 16 til 21 og eru allir boðnir velkomnir að líta við.