Norrænn skjaladagur í dag 11. nóvember 2017

Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum sameinuðust árið 2001 um árlegan kynningardag, annan laugardag í nóvember. Í ár er hann laugardaginn 11. nóvember 2017.

Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfnin standa sameiginlega að gerð sérstaks vefs til að kynna norræna skjaladaginn, opinberu söfnin og safnkost þeirra.

Yfirskrift skjaladagsins árið 2017 er „Hús og heimili“. Fjallað er um skjöl og skjalaflokka sem tengjast húsum, húsagerð, híbýlum, heimilishaldi og innanstokksmunum í víðum skilningi. Finna má ýmis dæmi um heimildir sem tengjast þema dagsins með einhverjum hætti á þessum vef. 

Mörg skjalasöfn opna hús sín fyrir almenningi á þessum degi og vekja athygli á tilteknum skjalaflokkum, oft með því að setja upp sýningar á völdum skjölum sem tengjast þema dagsins hverju sinni. Önnur setja upp sýningar sem tengjast skjaladeginum með einhverjum hætti, en standa uppi í lengri tíma. Óhætt er að fullyrða að eitthvað sé á döfinni hjá flestum skjalasöfnunum um þetta leyti ársins.

Hægt er að lesa nánar um þemað í leiðara skjaladagsins og kanna hvað er á dagskrá hjá þeim skjalasöfnum sem hafa opið á skjaladeginum 11. nóvember 2017.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur tekur þátt í Norrænum skjaladegi með þátttöku í skjaladagsvefnum www.skjaladagur.is, með sýningu á skjölum tengdum þema dagsins í stigagangi Grófarhúss og með greinarskrifum.

Í sýningarkössum safnsins í stigagangi Grófarhúss má sjá skjöl úr einkaskjalasafni Hólmfríðar Ólafsdóttur Kragh og manns hennar Hans Kragh (E-397). Þau byggðu sér íbúð að Birkimel 6b gegnum Byggingarfélag símamanna og bjuggu þar megnið af sínum bústap. Meðal annars eru sýnt hjúskaparvottorð Hólmfríðar og Hans, kort til Hólmfríðar, fæðingarvottorð Hans og passamynd, vegabréf Hólmfríðar og ljósmyndir frá þeim, skuldabréf og fleira vegna Birkimels og ljósmyndir teknar með útsýni yfir Melana.  

Þá eru sýnd skjöl frá Byggingarfélagi alþýðu (E-100) sem var stofnað með lögum 1929. Héðinn Valdimarsson var flutningsmaður frumvarps að fyrstu lögum um verkamannabústaði og formaður Byggingafélags alþýðu frá upphafi til 1946, en var þá gerður að heiðursfélaga. Í tilefni af 25 ára afmæli félagsins árið 1955 var afhjúpuð stytta af Héðni Valdimarssyni við leikvöllinn við Hringbraut. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari gerði styttuna.  Félagið byggði 172 íbúðir í Vesturbænum í þremur áföngum á árunum frá 1931 til 1937. Til sýnis er fyrsta fundargerðabók Byggingafélags alþýðu frá 4. apríl 1930, dæmigerður húsaleigusamningur, bréf og ljósmyndir af styddu Héðins Valdimarssonar, dagskrá og aðgöngumiði að hófi á 35 ára afmæli félagsins og aðgöngumiði frá 25 ára afmælinu, bréf um stofnun Byggingarfélagsins frá 15. ágúst 1930 og ljósmyndir af húsunum.

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Svanhildi Bogadóttur borgarskjalavörð um skjalavörslu undir heitinu ,,Skiptir skjalavarsla þig máli?"

Þótt lög gildi um opinbera skjalavörslu, er ekki nægilega áréttað að einstaklingar í félögum, stofnunum og fyrirtækjum ráða miklu um hvað verður um gögn sem þeir vinna með eða varðveita. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfnin séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl af ýmsu tagi eiga erindi á skjalasöfn. Því er fólk hvatt til að hafa samband við næsta héraðsskjalasafn, eða Þjóðskjalasafn, ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað gera á við, eða vill koma í örugga vörslu.