Ný upplýsingalög

,,Nú um áramótin tóku gildi ný upplýsingalög nr. 140/2012, sem koma í stað upplýsingalaga nr. 50/1996. Þar er að finna fjölmargar breytingar sem rýmka rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá opinberum aðilum og varðandi meðferð opinbers fjár.

Upplýsingalögin ná nú til allrar starfsemi sem fram fer á vegum einkaréttarlegra lögaðila sem eru í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira. Í þessu felst umtalsverð rýmkun á gildissviði laganna. Undir þessa afmörkun falla til að mynda fyrirtæki í eigu hins opinbera, svo sem Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, RARIK ohf., ýmis hlutafélög í eigu sveitarfélaganna og fleiri fyrirtæki í eigu hins opinbera. Í þessu felst þó ekki sjálfkrafa að allar upplýsingar sem þessa lögaðila varða verði aðgengilegar en áfram er byggt á þeirri reglu að vegna samkeppnishagsmuna sé heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar aðgangsrétti almennings.

Þessu til viðbótar taka lögin til einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða veita opinbera þjónustu með lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða samningum. Upplýsingalögin taka einvörðungu til þeirra upplýsinga sem varða hina opinberu þjónustu, en ekki til starfsemi þessara aðila í heild. Eldri upplýsingalög tóku til einkaaðila að því leyti sem þeim hafði á grundvelli lagaheimildar verið falið vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Í ákvæði um þjónustu sem einkaaðilum er falið að veita felst því rýmkun á gildissviði laganna.

Til þess að gefa viðkomandi fyrirtækjum aðlögunartíma þá taka nýju lögin gildi gagnvart þeim 1. júlí næstkomandi. Ennfremur gilda lögin að þessu leyti eingöngu varðandi gögn sem verða til eftir gildistöku nýju upplýsingalaganna. Þeir lögaðilar sem fengið hafa skráningu eða sótt um skráningu hlutabréfa í kauphöll falla ekki undir upplýsingalög. Þá er heimilt að veita fyrirtækjum sem starfa að nær öllu leyti í samkeppni á markaði undanþágu frá lögunum að fenginni umsögn Samkeppniseftirlitsins."

Frekari upplýsingar á heimasíðu Forsætisráðuneytisins.

Ný upplýsingalög í heild.