Sextíu ára afmæli varnarsamnings við Bandaríkin

Nýlega voru 60 ár liðin síðan að Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins var undirritaður í Reykjavík, þann 5. maí 1951. Undir samninginn skrifuðu Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Edward B. Lawson, sérlegur sendiherra og ráðherra með umboði fyrir Bandaríki Ameríku á Íslandi.

Á þeim tíma sem samningurinn var gerður höfðu ráðamenn á Íslandi sem annars staðar áhyggjur af hugsanlegum átökum á milli stórveldanna tveggja sem stóðu eftir uppi sem sigurvegarar eftir seinni heimsstyrjöldina. Ríkisstjórn Íslands var hliðholl Vesturveldunum og hafði Alþingi samþykkt að ganga í Atlantshafsbandalagið (NATO) árið 1949 sem valdið hafði deilum og óeirðum. Kóreustríðið braust út sumarið 1950 þegar kommúnistar í Norður-Kóreu réðust yfir landamærin til Suður-Kóreu.

Varnarsamningurinn var í gildi í 55 ár og var sagt upp einhliða af Bandaríkjamönnum haustið 2006. Þá höfðu Bandaríkjamenn á mismunandi tímabilum rekið hér á landi fjórar ratsjárstöðvar auk herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Jafnan voru hér á friðartímum að minnsta kosti tvö þúsund erlendir hermenn.

Borgarskjalasafnið vill benda áhugasömum á að einkaskjalasafn Bjarna Benediktssonar er aðgengilegt á safninu og að miklu leyti á vefnum. Þar er til að mynda að finna ýmis skjöl er varða inngöngu Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagið. Varðandi Varnarsamninginn getur verið sérlega forvitnilegt að skoða minnisblöðin af fundi utanríkisráðherra Íslands með Standing Group-nefnd í Pentagon-byggingunni sem hýsir varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna þann 19. september 1950. Á fundinum voru franskur, bandarískur og breskur hershöfðingi. Formaður nefndarinnar, Frakkinn Paul Ely var á þessum tíma fulltrúi Brussels-sambandsins sem seinna varð að Vestur-Evrópusambandinu. Tilgangur fundarins var „að rannsaka í sameiningu innan ramma NATO með hverjum hætti öryggi og fullveldi Íslands verði haldið uppi. Með öðrum orðum, að rannsaka hverja þá hættu, sem kann að snúa að Íslandi. Það er annað mál, sem er jafn þýðingarmikið, en sem er ekki efni viðræðanna í dag, og það er spurningin („problem“) um stofnun flug- eða sjóstöðva innan ramma allsherjar hernaðaráætlunarinnar.“ Þá er ekki úr vegi að benda á sjálfa fréttatilkynninguna frá ríkisstjórninni 7. maí 1951 varðandi varnarmál.

Texti: Hrafn Malmquist