Skjalasafn Bjarna Benediktssonar afhent Borgarskjalasafni Reykjavíkur

Einkaskjalasafn Bjarna Benediktssonar, fv. borgarstjóra og forsætisráðherra var formlega afhent Borgarskjalasafni Reykjavík til varðveislu og eignar í Höfða miðvikudag 30. apríl 2008 kl. 14, en þann dag hefði Bjarni orðið 100 ára.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Ólafur F. Magnússon og Björn Bjarnason fyrir hönd lögerfingja Bjarna undirrituðu samning um afhendinguna, en í honum kemur fram hvaða skjöl eru afhent og hvaða aðgangsskilyrði eru að þeim.

Um er að ræða einstaklega yfirgripsmikið og umfangsmikið skjalasafn sem spannar allt frá æskudögum hans til dauðadags. Bjarni Benediktsson fæddist árið 1908 og lést árið 1970 á hátindi ferils síns. Bréfa- og málasafn hans spannar allan pólitískan feril hans, þar með talið frá tíma hans sem borgarfulltrúi, borgarstjóri, formaður Sjálfstæðisflokksins, þingmaður, dóms- og kirkjumálaráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra.

Sömuleiðis er í safninu skjöl frá störfum hans sem ritstjóri Morgunblaðsins, lagaprófessor og lögmaður. Um er að ræða móttekin bréf, afrit útsendra bréfa, greinargerðir, skýrslur, minnisblöð og fleira. Meðal annars er til umfjöllunar stjórnarskrármálið, utanríkismál, efnahagsmál og fleira. Í safninu er mikið magn af ræðum og greinum og sömuleiðs drög að ræðum sem sýna hvernig þær hafa mótast. Þá er í safninu fjöldi ljósmynda, einkum af opinberum viðburðum og fjölskyldum, auk muna.

Unnið er að skráningu skjalasafnsins og mun það verða opnað til rannsókna eigi síðar en 1. febrúar 2009.

Opnuð hefur verið sérstök vefsíða á vegum Borgarskjalasafns Reykjavíkur um Bjarna Benediktsson. Slóð hennar er: www.bjarnibenediktsson.is