Skjalasafn Lionsklúbbsins Fjörgyn í Reykjavík afhent Borgarskjalasafni

Lionsklúbburinn Fjörgyn kom færandi hendi til Borgarskjalasafns Reykjavíkur í síðustu viku þegar að safninu var fært til varðveislu skjalasafn klúbbsins frá stofnun þess.

Lionsklúbburinn Fjörgyn var stofnaður 14. maí 1990 svo skjalasafn klúbbsins spannar 30 ára sögu hans og veitir afar áhugaverða innsýn i starf hans. Um er að ræða fundagerðir, félagatöl, ársskýrslur, ársreikninga, fylgiskjöl, tímarit og fleira ásamt nokkrum munum sem tengjast sögu félagsins.

Fjörgyn beitti sér í upphafi sérstaklega fyrir verkefnum sem tengdust æsku landsins. Ötullega var stutt við bakið á Umf. Fjölni í Grafarvogi fyrstu árin, skátafélaginu Vogabúar, skólahljómsveit Grafarvogs, Æskulýðsfélags Grafarvogskirkju, félagsmiðstöð i Rimaskóla o.fl.

Frá hausti 2003 hafa félagar i Fjörgyn lagt Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) lið og haldið árlega tónleika í Grafarvogskirkju til að safna styrkjum þeim til handa. Klúbburinn hefur keypt og annast rekstur bifreiða, gefið muni eins og tölvur, skrifstofubúnað, húsbúnað, upptökutæki, skjávarpa og margt fleira. Allt eftir þörfum BUGL hverju sinni.

Skjöl klúbbsins endurspegla líka ekki síst framkvæmd ólíkra þátta sem tengjast inn á afar mörg ólík svið samfélagsins s.s. fjáraflanir og leiðir til þeirra, líknarstörf til þeirra sem höllum standa fæti, samskipti við mjög breiðan hóp styrkþega og styrkveitendur og samskipti milli mismunandi klúbba innanlands sem utan. Söfn félagasamtaka eins og Lionsklúbba á Íslandi eru ómetanlegar heimildir sem endurspegla þannig ekki bara hefðbundið form í félagsstörfum klúbba.