Styrkur til ljósmyndunar og miðlunar elstu skjala Reykjavíkurborgar

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur fengið styrk að upphæð 3,6 milljónir króna til að ljósmynda og birta á vef sínum elstu skjöl borgarinnar. Með þessu verða skjölin aðgengilegri bæði almenningi og fræðimönnum. Um leið verður um öryggisafritun að ræða og ekki lengur þörf á að taka frumritin fram.

Um er að ræða hluta af fjárframlagi á fjárlögum fyrir árið 2016 sem er eyrnamerkt verkefnastyrkjum fyrir héraðsskjalasöfn landsins til skönnunar og miðlunar valdra skjalaflokka. Á árinu 2016 höfðu forgang verkefni  sem byggðust á að skanna eldri skjöl sveitarfélaga. Þjóðskjalasafn Íslands fékk það hlutverk að úthluta styrkjunum. Settar voru reglur og almennir skilmálar um umsóknir og úthlutanir og styrkirnir auglýstir. 

Alls bárust 19 umsóknir frá 15 héraðsskjalasöfnum og samtals var sótt um ríflega 30 milljónir í styrki. Sérstök nefnd, skipuð Brynju B. Birgisdóttur (formaður), Helgu Jóhannesdóttur og Magnúsi Karel Hannessyni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, mat umsóknir og gerði tillögur um styrkveitingar. Samþykkt voru 12 verkefni frá 11 héraðsskjalasöfnum og fengu þau samtals 15 milljónir í styrki. 

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hlaut að þessu sinni hæsta styrkinn sem veittur var og var hann 3,6 milljónir eins og áður var nefnt. 

Hér má lesa frétt um styrki til skjalasafnanna í heild sinni.

Að sögn Svanhildar Bogadóttur borgarskjalavarðar verður byrjað að ljósmynda elstu opinberu skjölin á Borgarskjalasafni. Þau verða skráð á ýtarlegri hátt þegar þörf er, til dæmis borgarabréf og síðan birt á vef safnsins. Með því verður greiður aðgangur að skjölunum fyrir alla, jafnt heima í stofu og erlendis en sífellt fleiri fyrirspurnir um skjöl berast erlendis frá, ekki síst þegar skjalaskrár eru í auknum mæli aðgengilegar á vef. 

Styrkurinn mun koma Borgarskjalasafni að góðum notum en lengi hefur verið stefnt að því að afrita smátt og smátt elstu skjöl borgarinnar á þennan hátt og birta á vef.