Umsögn Borgarskjalasafns um frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga

Alþingi hefur birt á vef sínum umsögn Borgarskjalasafns um frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Í umsögninni kemur m.a. fram:

,,Gert er ráð fyrir að reglugerðin verði lögfest með tilvísunaraðferð ásamt því að umrita valdar greinar úr henni að hluta til eða öllu leyti. Þetta er óskýrt fyrir almenning, getur valdið misskilningi og réttaróvissu. Álitamál er hvort slík innleiðingaraðferð standist kröfur íslenskrar stjórnskipunar. Frumvarpið er flókið og skýtur skökku við að lög sem eru ætluð almenningi til hagsbóta séu svo óskýr og illa framsett að borgurum er í raun ofviða að skilja efni þeirra og  átta sig á réttindum sínum.

Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þurfa að vera skýr og skiljanleg – á mannamáli, þannig að almenningur geti skilið þau. Einnig eru þau óskýr fyrir ábyrgðaraðila um hvað eigi að gera til að uppfylla skilyrði laganna, hvað megi og hvað megi ekki.

Það á ekki að þurfa lögfræðinga til að geta uppfyllt lögin eða skýrt. Ef þetta eiga að verða ein af grundarvallarlögum um réttindi almennings, eins og stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um opinber skjalasöfn eru, þá verða þau að vera skýr. Markmið þeirra síðastnefndu er einmitt að tryggja vörslu og örugga meðferð skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. 

Persónuvernd um gögn er nátengd skjalastjórn og skjalavörslu opinberra aðila. Borgarskjalasafn lýsir stuðningi við margt í frumvarpinu, einkum það sem er til þess fallið að renna styrkari stoðum undir örugga skjalavistun og reglu á stjórn slíkra mála – þ.á. m. er gerð skjalavistunaráætlana hjá afhendingarskyldum aðilum.

Ljóst er að verndarandlag laga um opinber skjalasöfn og persónuvernd er að mörgu leyti hið sama. Þótt með nýjum lögum eigi að aflétta almennri tilkynningarskyldu af ábyrgðaraðilum munu þeir áfram þurfa að hafa sín skjalamál í lagi – m.a. með gerð svokallaðra vinnsluskráa – og er það til bóta. Þó þarf að gera ákvæði hér að lútandi enn skýrari.  Til dæmis þarf að taka fram hvar skylda til að halda skrár um vinnslu persónuupplýsinga sem tengist starfsmannahaldi hjá ríki og borg liggur. Til dæmis heldur fjársýsla ríkisins utan um starfsmannaupplýsingar margra opinberra stofnana og hafa margir velt fyrir sér hvar skylda liggi til að gera um þær vinnsluskrár. Þá þykja óljós ýmis atriði sem tengjast því hverja beri að telja ábyrgðaraðila í skilningi frumvarpsins. Er það t.d. leikskóli eða félagsmiðstöð, eða Reykjavíkurborg sjálf? Þetta þarf að vera alveg skýrt.

Eins og Borgarskjalasafn hefur margoft bent á er mjög mikilvægt að eyða þeim útbreidda misskilningi að með nýjum persónuverndarlögum verði afhendingarskyldum aðilum heimilt eða skylt að eyða persónuupplýsingum sem hafi myndast í stjórnsýslunni. Það getur valdið einstaklingum og stjórnvöldum miklum skaða verði skjölum eytt í heimildarleysi. "

Smellið hér til að lesa umsögn Borgarskjalasafns á vef Alþingi í heild sinni.