Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum nr. 140/2012

Nú liggur fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp er snýr að breytingum á upplýsingalögum nr. 140/2012  hvað varðar réttarstöðu þriðja aðila. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sendi frumvarpið til umsagnar Borgarskjalasafns og hefur safnið sent inn umsögn sína um frumvarpið.   

Í umsögn sinni segir Borgarskjalasafn meðal annars:

Verði stjórnvöldum skylt að leita afstöðu þriðja aðila í öllum málum er ljóst að framkvæmd upplýsingalaga muni þyngjast, einkum hjá þeim stjórnvöldum sem afgreiða mikið af upplýsingabeiðnum líkt og opinber skjalasöfn gera. Mikilvægt er að upplýsingaréttur almennings sé einfaldur og virkur í framkvæmd. Því þarf að fara varlega í breytingar sem íþyngja stjórnvöldum við framkvæmd hans.

Þá kunna stjórnvöld að vera bundin trúnaði gagnvart fyrirspyrjanda. Sem dæmi geymir Borgarskjalasafn Reykjavíkur mikið af gögnum frá barnavemdaryfirvöldum Reykjavíkur og afgreiðir úr þeim upplýsingar. Þegar afgreiddar eru upplýsingar úr slíkum gögnum eru trúnaðarupplýsingar um aðra en fyrirspyrjanda afmáðar.

Í slíkum málum hefur fyrirspyrjandi oft ríka hagsmuni af því að aðrir fái ekki vitneskju um að hann hafi óskað eftir upplýsingum, þar á meðal þriðji aðili. Því er mikilvægt að áður en fyrirhugaðar breytingar á upplýsingalögum verða lögfestar sé tekið tillit til sjónarmiða um trúnað gagnvart fyrirspyrjendum.

Eitt af fjölbreyttum verkefnum Borgarskjalasafns er að gera umsagnir um frumvörp Alþingis til laga er lúta t.d. að skjalastjórn opinberra aðila, upplýsingalaga eða annarra laga sem að tengjast starfsemi og hlutverki safnsins.

Hér má lesa umsögn safnsins.