Varðveisla skjala foreldrafélaga leikskóla og grunnskóla

Meginhlutverk Borgarskjalasafns er að taka við skjölum stofnana og fyrirtækja Reykjavíkur til varðveislu og afgreiða úr þeim upplýsingar til þeirra sem leita til safnsins. Jafnframt tekur safnið til varðveislu skjöl frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum.

Borgarskjalasafn hefur áhuga á því að fá til varðveislu skjöl foreldrafélaga leikskóla og grunnskóla í Reykjavík. Áríðandi er að starf og saga foreldrafélaganna glatist ekki eða falli í geymslu. Saga þeirra er varðveitt í skjölum sem oft eru geymd við misjafnar aðstæður hjá stjórnarmönnum eða í skólunum sjálfum.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur hvetur félögin til að afhenda safninu þau skjöl sem ekki eru lengur í daglegri notkun í því skyni að skjölin varðveitist á öruggum stað og verði aðgengileg áhugasömum um ókomin ár. Á skjalasöfnum hafa fleiri tækifæri til að skoða skjölin og fræðast um sögu félaganna.

Starfsmenn Borgarskjalasafns geta veitt foreldarafélögunum ráðgjöf og aðstoð frágang og afhendingu skjalanna. Skjalasöfn félaga samanstanda til dæmis af fundagerðarbókum, bréfasöfnum, ljósmyndum, félagatölum, fréttabréfum, kynningarefni, bókhaldi, ársskýrslur, ársreikninga og etv. fleiru. Gögn á rafrænu formi eins og félagatöl í Excel, fundargerðir eða tölvupósta þarf að prenta út til afhendingar.

Vinsamlegast hafið samband við Borgarskjalasafn í síma 411 6060, netfang borgarskjalasafn@reykjavik.is að fá nánari upplýsingar eða komið skjölunum til safnsins sem er til húsa að Tryggvagötu 15, 3. hæð.