Vel heppnuð ráðstefna í Nuuk

Átta starfsmenn Borgarskjalasafns sóttu Vest-Norræna skjaladaga í Nuuk á Grænlandi 25.-28. ágúst 2014. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar styrkti ferð þeirra og var hún liður í endurmenntun starfsmanna.

Ráðstefnuna sóttu skjalaverðir frá Færeyjum, Íslandi og Grænlandi, auk fyrirlesara frá Danmörku og Noregi. Fjöldi fyrirlestra var á ráðstefnunni og sömuleiðis var hún góður vettvangur að ræða við kollega frá þessum löndum og kynnast nýrri menningu.

Ekkert borgarskjalasafn er í Nuuk í dag en unnið er að því að koma upp sögumiðstöð sem verði tileinkuð sögu bæjarins. Að sögn er til töluvert af skjölum og munum sem munu verða í sögumiðstöðinni. 

Í ljós kom að Nuuk og Reykjavík eiga ýmislegt sameiginlegt í byggingasögu sinni og væri áhugavert að skoða þann flöt nánar síðar.