Vel heppnuð Safnanótt 2013

Borgarskjalasafnið og Héraðsskjalasafn Kópavogs höfðu opið milli kl. 19 og 24 föstudagskvöldið 8. febrúar sl. í tilefni af Safnanótt 2013. Um 170 manns sóttu Héraðsskjalasafn Kópavogs heim og Borgarskjalasafnið 381.

Borgarskjalasafnið var með opið hús kl. 19.00-23.59 á Safnanótt föstudagskvöldið 8. febrúar sl.  og var jöfn og góð aðsókn allt kvöldið. Samtals sóttu 381 manns safnið heim þetta kvöld. Boðið var upp á  fyrirlestra, tónlistaratriði, sýningu tengda íþróttum, úrklippur úr dagblöðum um íþróttir og safnið leitaði til almennings varðandi að þekkja fólk og atburði á íþróttaljósmyndum. Barnahornið var að sjálfsögðu á sínum stað og hin sívinsæla getraun.

Borgarskjalasafn hefur staðið í átaki í söfnun skjala íþróttafélagi í samstarfi við önnur héraðsskjalasöfn og Íþrótta- og ólympíusamband Íslands í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ og því þótti við hæfi að leggja áherslu á íþróttir í dagskrá safnsins. Í sýningakössum safnsins var sýnt brot af þeim fjársjóði sem hefur borist frá íþróttafélögum í Reykjavík og á tjaldi í fundarherbergi var varpað upp íþróttaljósmyndum frá ýmsum tímum.

Borgarskjalasafnið hefur nú skannað allar ljósmyndir sem hafa borist með skjölum íþróttafélaga og eru það yfir 6.000 ljósmyndir. Safnið hefur leitað eftir aðstoð almennings á Facebook við að þekkja fólk og atburði á ljósmyndunum, enda eru þær meira virði þegar slíkar skráningar liggja fyrir. Viðbrögðin hafa verið ótrúleg og sú var einnig raunin á Safnanótt þegar biðlað var tilalemmnings að setjast niður og aðstoða starfsmann við að þekkja fólk á myndum. Komust færri að en vildu. Barnahornið var vinsælt og margir tóku þátt í safnanæturleik og getraun Borgarskjalasafns eða tylltu sér niður og skoðuðu úrklippubækur fyrri ára um íþróttir.

Sigurbjörn Þorkelsson, rithöfundur flutti erindi um dauðann og var Sigurbjörn innilegur eins og honum einum er lagið en á óvart kom hvað erindið var á köflum skemmtilegt. Björn Hróarsson, jarðfræðingur og rithöfundur tók við af honum og flutti í myrkrinu nokkrar krassandi draugasögur úr eigin lífi. Fór um suma við sögurnar enda voru þetta sögur úr samtímanum. Björn gaf út draugasögubókina Narfa á síðasta ári.  Jón Þór Sigurleifsson, gítarleikari lauk dagskrá safnsins með einleik á átta strengja rafgítar, þar sem hann meðal annars frumflutti einleiksverk fyrir átta strengja rafgítar. Mikinn fjöldi kom að hlýða á leik hans sem var undurfagur og áhrifamikinn en þó drungalegur á köflum.

Þeir fimm starfsmenn Borgarskjalasafns sem voru að störfum voru ánægðir með kvöldið og þann mikla áhuga sem almenningur sýndi safninu og dagskrá þess.

Bestu þakkir til allra þeirra sem sóttu Borgarskjalasafn heim á Safnanótt 2013.

Á Facebook síðu safnsins má sjá nokkrar ljósmyndir frá Safnanótt á Borgarskjalasafni Reykjavíkur og Héraðsskjalasafni Kópavogs.