Vel heppnuð Safnanótt á Borgarskjalasafni

Glæsileg dagskrá Borgarskjalasafns á Safnanótt, heppnaðist í alla staði mjög vel. Vel yfir 1000 gestir á öllum aldri sóttu safnið heim, fengu sér kaffi og meðlæti og skoðuðu það sem safnið hafði upp á að bjóða. Reynt var eftir fremsta megni að hafa dagskrána eins fjölbreytta og mögulegt var. Boðið var upp á fyrirlestur um sparnað frá SPRON, Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur, flutti skemmtilegt spjall um Þórberg Þórðarson, Eva Hauksdóttir úr Nornabúðinni sagði frá göldrum og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur fjallaði um varnir gegn kjarnorkuárásum.

Gestir gátu einnig sest niður og svifið á vængjum fortíðar, en gömlum Reykjavíkurpóstkortum var varpað á tjald við tónlist tíðarandans, auk þess sem Reykjavíkurkvikmynd Magnúsar Jóhannessar frá árið 1957 var sýnd.