Viðamiklar rannsóknir Borgarskjalasafns fyrir Vistheimilanefnd

Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur hefur farið fram mikið starf undanfarna 15 mánuði við rannsóknir og afritun á  gögnum um þrjár stofnanir sem nefnd skv. lögum nr. 26/2007, þ.e. vistheimilanefndin svokölluð hefur haft til rannsóknar 2008-2009. Safnið hefur skilað til nefndarinnar yfir 10 þúsund afritum skjala á þessu tímabili, bæði almennum gögnum og málum einstaklinga. Nú hefur nefndin lokið við skýrslu til forsætisráðherra um könnun á starfsemi umræddra stofnana og kynnti forsætisráðherra hana á blaðamannafundi þriðjudaginn 8. september sl.

Skýrsluna má hala niður á pdf formi hér.

Tildrög rannsóknarinnar voru þau að þann 11. apríl 2008 afhendi forsætisráðherra nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn nýtt erindisbréf þar sem kveðið er á um framhald á störfum nefndarinnar. Nefndin ákvað á fundi sínum 29. apríl að neðangreinar stofnanir skyldu í fyrstu sæta könnun nefndarinnar:

Formlegt erindi barst til Borgarskjalasafns frá nefndinni þann 26. maí 2008. Í því kom fram að nefndin óskaði í fyrstu eftir gögnum varðandi almenna starfsemi umræddra stofnana og sem varpað geti ljósi á eftirfarandi atriði:

Hafist var handa við að afla almennra gagna um starfsemi ofantalinna heimila í júní 2008. Leitað var eftir hvers konar gögnum er varpað gætu ljósi á starfsemi vistheimilanna almennt. Þann 11. ágúst skilaði Borgarskjalasafn fyrstu afritunum til nefndarinnar. Á tímabilinu 11. ágúst 2008 – 15. maí  2009 afhenti Borgarskjalasafn samtals 2.865 afrit af almennum gögnum sem vörðuðu umrædd heimili:

Kumbaravogur - 68 afrit Skólaheimilið Bjarg – 54 afrit Heyrnleysingjaskólinn – 1.717 afrit Vistheimlið Reykjahlíð - 223 afrit Heimavistarskólinn Jaðar - 492 afrit Ýmis skjöl önnur – 311 afrit

Þann 4. september 2008 barst fyrsti listinn yfir einstaklinga sem hefðu verið vistaðir á einstöku vistheimili. Um var að ræða lista yfir 28 einstaklinga frá Reykjavík sem hefðu verið vistaðir á Kumbaravogi. Óskað var eftir gögnum varðandi málsmeðferð hjá barnaverndaryfirvöldum, heilsufarsupplýsingar, gögn um athuganir opinberra eftirlitsaðila, og eftir atvikum lögreglu, ábendingum eða kvörtunum varðandi meðferð einstakra barna.

Um miðjan september var fyrsta afhending safnsins á trúnaðarskjölum einstaklinga sem dvöldu á Kumbaravogi. Alls voru afgreidd skjöl varðandi mál 33 barna sem dvalið höfðu um lengri eða skemmri tíma á heimilinu. Um var að ræða alls 1.094 afrit. Þá voru afhentar þær upplýsingar sem fundust varðandi stúlkur sem höfðu dvalist á skólaheimilinu Bjargi.

Nafnalisti barst yfir börn sem hefðu verið vistuð á vistheimilinu í Reykjahlíð þann 9. október 2008 og fór þá af stað leit að þeim málum. Flest þessara mála voru afar umfangsmikil og vinnsla þeirra tímafrek. Leitað var eftir trúnaðarskjölum 66 einstaklinga ásamt viðbótarskjölum um systkini í sumum tilfellum. Gögn fundust um 64 þeirra og alls voru afgreidd 1.290 afrit til nefndarinnar varðandi einstaklinga sem voru vistaðir á Reykjahlíð.

Nafnalistar bárust fyrir þá einstaklinga frá Reykjavík sem hefðu verið sendir í heimavistarskólann að Jaðri í nóvember 2008 í þremur aðskildum listum. Óskað var eftir upplýsingum um mál 375 einstaklinga. Vegna málafjölda var ráðinn annar sagnfræðingur í rannsóknir og voru tveir starfsmenn eingöngu í þessu verkefni frá því í mars 2008. Í sumarbyrjun 2009 fundust á Borgarskjalasafni listar með nöfnum fleiri barna sem höfðu verið á Jaðri. Fyrsta afhending Jaðarsmála var 28. apríl og voru síðan afhendingar á u.þ.b. hálfsmánaðarfresti fram í júlí. Nú hafa verið afhent fullkláruð mál 137 einstaklinga og nær fullkláruð mál 92 einstaklinga. Alls hafa verið afhent 5.218 afrit skjala varðandi Jaðarsmál.

Samtals voru afrituð á Borgarskjalasafni um 10.500 skjöl og afhent nefndinni til úrvinnslu.

Helstu skjalaflokkar/skjalasöfn Borgarskjalasafns við gagnaleit voru:

Í  heild má segja að heimildaöflun hafi gengið vel þrátt fyrir að hún hafi verið tímafrekari og umfangsmeiri en gert var ráð fyrir, ekki síst vegna málafjölda. Upplýsingar fundust um mál flestra þeirra einstaklinga sem óskað var eftir. Leit að málum náði yfir langt tímabil allt frá árinu 1946 til 1984, þar sem skipulag barnaverndarmála, skólamála og framfærslumála var með ýmsum hætti og þar með afgreiðsla mála og vinnufyrirkomulag, sem gerði það að skjalavarsla viðkomandi aðila var mismunandi eftir tímabilum.

Borgarskjalasafn átti prýðilegt samstarf við Þjóðskrá, þjónustumiðstöðvar, skjalastjóra Velferðarsviðs og ekki síst við starfsmenn nefndar um starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn og þakkar fyrir það.

Að rannsóknunum á Borgarskjalasafni unnu: Bára Baldursdóttir og Sigríður Björk Jónsdóttir, báðar sagnfræðingar.