Viðbrögð við vá - málstofa um Bláa skjölinn fimmtudag 6. júní nk

Málstofa um Bláa skjöldinn á ÍslandiFimmtudag 6. júní 2013, kl. 09 – 11Fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands

Alþjóðleg nefnd um bláa skjöldinn / The International Committee of the Blue Shield (ICBS) vinnur að vernd menningarverðmæta sem eru í hættu vegna átaka eða náttúruhamfara. Markmiðið er m.a. að sameina krafta og þekkingu ýmissa fagaðila frá söfnum, sveitafélögum og Almannavörnum til að tryggja bestu viðbrögð þegar vá ber að höndum.

Blái skjöldurinn er samstarfsverkefni alþjóðlegra hópa og samtaka á sviði safnastarfs, minjavörslu og menningarstarfsemi, má þar nefna ICOM, ICOMOS, IFLA, ICA og CCAAA (sjá fyrir neðan Requirements for National Committees of the Blue Shield).

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að stofnun bláa skjaldarins á Íslandi og hafa ýmsir aðilar komið að þeirri vinnu, meðal annars Íslandsdeild ICOM.

Fimmtudaginn 6. júní 2013 kl. 09.00 - 11.00 verður haldinn málstofa, þar sem fjallað verður um verkefnið og vinnuna við það hér á landi.

Sérstakur gestur á málstofunni verður Leif Pareli, fulltrúi ICOM í landsnefnd Blue Shield í Noregi. Leif tók þátt í að stofna landsnefnd Blue Shield í Noregi árið 2000 og mun miðla af reynslu Norðmanna í þessu efni. Að loknum kynningum verða almennar umræður og á boðstólum verða léttar kaffiveitingar.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður býður gesti velkomna.

Ólöf K. Sigurðadóttir formaður Íslandsdeildar ICOM

Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður á Héraðsskjalasafni Kópavogs: Hvers vegna Blái skjöldurinn?

Nathalie Jacqueminet, fagstjóri Forvörslu á Þjóðminjasafni Íslands og Dagný Heiðdal, deildastjóri Listaverkadeildar á Listasafni Íslands: Öryggismál safna og náttúruhamfarir.

Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða: Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum.

Leif Pareli, fulltrúi ICOM í Blue Shield landsnefnd í Noregi: Blue Shield in Norway (á ensku)

Umræður

Fundurinn er opinn og við hvetjum alla sem þetta málefni varðar og þá sem hafa áhuga á því að mæta! Vinsamlegast tilkynnið þátttöku fyrir 5. júní á nathalie@thjodminjasafn.is

 

Þess má geta að stjórn Félags héraðsskjalavarða á Íslandi sendi bréflega áskorun til mennta- og menningarmálaráðherra og utanríkisráðherra 31. mars 2012 um að þeir stuðli að því að Ísland gerist hið fyrsta aðili að Haag sáttmálanum frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

Í áskoruninni er bent á að þau lönd sem viðurkenna sáttmálann skuldbinda sig til að virða eigin menningararf og annarra. Þetta þýðir að menningararfur á ekki að eyðast eða verða fyrir tjóni í stríði. Sáttmálinn á einnig að koma í veg fyrir að menningarverðmæti verði tekin herfangi eða haldið í gíslingu. Aðildarríkin skuldbinda sig auk þess til þess að gera stöðugt nauðsynlegar verndarráðstafanir á friðartímum.

Minnt er á alþjóðlegt samstarf um bláa skjöldinn, en ákvæði um bláa skjöldinn og notkun hans eru í sáttmálanum. Blái skjöldurinn er sambærilegur við rauða krossinn, en snýst um menningarverðmæti. Víðtækt alþjóðlegt samstarf á friðartímum kennt við bláa skjöldinn hefur skipt miklu máli við að afla sérfræðiaðstoðar hvaðanæva að úr heiminum við vernd menningarverðmæta á hamfarasvæðum.