Æviferill

Bjarni Benediktsson fæddist að Skólavörðustíg 11 A í Reykjavík hinn 30. apríl 1908 en lést í eldsvoða í Konungshúsi, síðar ráðherrabústað á Þingvöllum aðfararnótt 10. júlí 1970. Hann var sonur hjónanna Benediks Sveinssonar alþingismanns og Guðrúnar Pétursdóttur, húsmóður. Átti Bjarni sex systkini, þau Svein, Pétur, Kristjönu, Ragnhildi, Ólöfu og Guðrúnu.

Bjarni var tvígiftur, fyrri kona hans Valgerður Tómasdóttir, lést árið 1936 eftir aðeins eitt ár í hjónabandi. Kvæntist Bjarni síðari konu sinni, Sigríði Björnsdóttur, árið 1943 og átti með henni fjögur börn, Björn, Guðrúnu, Valgerði og Önnu. Sígríður fórst með manni sínum í eldsvoðanum á Þingvöllum og einnig barnungur dóttursonur þeirra, Benedikt Vilmundarson.
Nánar um fjölskyldu.

Bjarni ólst upp í Reykjavík, gekk þar í barnaskóla en tók inntökupróf í Menntaskólann í Reykjavík árið 1920 og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1926, 18 ára að aldri.

Ragnhildur Ólafsdóttir frá Engey, móðuramma Bjarna, rak til ársins 1919 kúabú á Háteigi í Reykjavík og var Bjarni kúasmali hjá henni og rak kýrnar inn í Fossvog á morgnana og sótti þær á kvöldin. Þá var hann nokkur sumur í fiskvinnu á Innra-Kirkjusandi, þar sem Bjarni, afi hans var verkstjóri. Hann var í sveit hjá Guðmundi Ólafssyni, ömmubróður sínum, á Lundum í Starfholtstungum. Þá var hann í síld á Siglufirði á námsárum sínum.

Bjarni settist í lagadeild Háskóla Íslands og lauk cand. juris-prófi árið 1930 með hæstu einkunn sem þá hafði verið gefin. Árin 1930 til 1932 stundaði hann framhaldsnám í stjórnlagafræði við háskóla í Berlín og Kaupmannahöfn. Hann varð heiðursdoktor í lögfræði 1961 við Háskóla Íslands.

Er Bjarni sneri aftur til Íslands árið 1932 var hann skipaður prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, aðeins 24 ára. Hann lét af því embætti er hann tók við starfi borgarstjóra í Reykjavík árin 1940-1947. Hann hafði þá setið í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1934.

Bjarni gegndi starfi ráðherra í rúma tvo áratugi, lengst allra Íslendinga til þessa. Hann var utanríkis- og dómsmálaráðherra 1947-1949 , utanríkis-. dóms- og menntamálaráðherra 1949-1950, utanríkis- og dómsmálaráðherra 1950-1953, dóms- og menntamálaráðherra 1953-1956, dóms-, heilbrigðis- og iðnaðarmálaráðherra 1959-1963 (forsætisráðherra í veikindaforföllum Ólafs Thors september til desember 1961) og forsætisráðherra frá 1963 til dauðadags.

Hann sat í bæjarstjórn Reykjavíkur 1934 til 1942 og á alþingi sem þingmaður Reykvíkinga frá 1942 til 1970.

Þau þrjú ár sem Bjarni sat ekki í ráðherrastól, 1956-1959, var hann einn ritstjóra Morgunblaðsins. Hann tók þátt í starfi fjölmargra nefnda og ráða, bæði á á vegum Reykjavíkurborgar og ríkisins. . Hann var mikilvirkur í starfi Sjálfstæðisflokksins, í miðstjórn frá 1936, varaformaður frá 1948 og formaður flokksins frá 1961 til dauðadags. Ennfremur var hann stjórnarformaður Almenna bókafélagsins frá stofnun þess árið 1955 til ársins 1970. Auk þess sat hann í stjórnum Eimskipafélags Íslands, Árvakurs og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um margra ára skeið.
Sjá nánar um ýmis stjórnmála- og trúnaðarstörf.

Bjarni skrifaði fjölda greina og rita, meðal annars um íslenska stjórnlagafræði, stjórnmálasögu, réttarfar, utanríkismál, varnarmál og störf alþingis.
Sjá nánar í ritaskrá.

 

Uppvaxtar - og námsár

Prófessor, borgarstjóri og sjálfstæðisbaráttan

Nánar um fjölskyldu